Sem fyrr eru flestir þeirra erlendu gesta sem hingað koma í fríi og var meðaldvalarlengd hér á landi um 10,5 dagur. Almenn aukning er í nýtingu afþreyingar af ýmsu tagi en sem fyrr njóta náttúruskoðun og sund mestra vinsælda.

"Það er mjög ánægjulegt að sjá að erlendu ferðamennirnir eru að nýta sér í auknum mæli þá afþreyingu sem boðið er upp á um allt land. Það sýnir að sú stefna sem við mörkuðum í þessum efnum var rétt. Þá er einnig fagnaðarefni að sjá að gistingum er að fjölga víðast hvar úti á landsbyggðinni milli kannana, ekki síst á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum," segir Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands í tilkynningu félagsins

Eins og fyrr gista flestir í Reykjavík en þar fækkar gistingum frá fyrri könnun en þeim fjölgar í öllum öðrum landshlutum, nema á Norðurlandi þar sem fjöldi gistinátta stendur nokkurn veginn í stað milli kannana. Flestir gista á hótelum og þar er smáaukning merkjanleg frá síðustu könnun sem og í bændagistingu.

Geysir og Þingvellir eru eins og áður þau svæði eða staðir sem flestir heimsóttu enda landið og náttúran þeir þættir sem erlendir ferðamenn meta jákvæðasta við Ísland. Þar á eftir kemur fólkið og síðan þjónustan en neikvæðustu þættirnir eru sem fyrr verðlagið og svo veðrið. Skilgreiningar eins og ?hrein og ómenguð náttúra? og ?einstakt náttúruævintýri? lýsa Íslandi best að mati erlendu sumargestanna. Margir nefndu einnig afslappað andrúmsloft.

Þá vekur athygli að vægi rútuferða, bæði skipulagðra ferða og sérleyfisferða, hefur minnkað frá síðustu könnun en notkun einkabíla hefur vaxið töluvert á meðan notkun bílaleigubíla er svipuð.