„Þetta hefur aldrei gengið eins vel. Svo framarlega sem við fáum útlendinga til landsins er þessi búð í lagi," segir Anne Helen Lindsay, eigandi Litlu jólabúðarinnar á Laugavegi 8. Í versluninni eru eingöngu seldar jólavörur „en á þessum tíma árs legg ég gríðarlega mikla áherslu á íslenskt handverk," segir hún og bætir við: „Útlendingarnir eru hrifnir af því. Þeir byrja iðulega á því að spyrja hvort við eigum eitthvað frá Íslandi."

Það eru eflaust margir undrandi á því hvernig hægt sé að reka verslun með jólavörur allan ársins hring en Anne Helen ber sig mjög vel og segir að tíu mánuði ársins sé meirihluti viðskiptamanna útlendingar. Þá séu Íslendingar meirihluti viðskiptavina mánuðina fyrir jólin.

Auk þess segist hún eiga sína föstu viðskiptavini.

„Ég heyri stundum í Íslendingum utan af götu hlæja að því að hér sé opin jólabúð á miðju sumri en ef þetta sama fólk sæi jólabúð í útlöndum fyndist því sjálfsagt að fara þangað inn. Ég heyri líka í erlendum ferðamönnum sem eru kannski hinum megin götunnar segja: "Christmas shop!" Svo hlaupa þeir yfir og barnið kemur upp í þeim þegar þeir sjá allt jóladótið. Margir safna hlutum á jólatréið og kaupa jólaskraut í hverju landi sem þeir koma til," segir Anne Helen Lindsay.