Um 64.700 erlendir gestir fóru frá landinu um Leifsstöð í september og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Til samanburðar voru ferðamennirnir 51.600 og jafngildir þetta 25,4% aukningu á milli ára. Ferðamennirnir það sem af er ári eru nú orðnir álíka margir og á öllu síðasta ári eða rétt rúmlega 540.000. Búist er við að þeir verði a.m.k. 620.000 fyrir áramót. Ekki er útilokað að þeir verði fleiri.

Þetta má sjá í tölum Ferðamálastofu Íslands sem birtar voru á föstudag og ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni deildarinnar í dag.

Þar segir m.a. að brottfarir erlendra ferðamanna eru nú komnar upp í 537.000 á fyrstu níu mánuðum ársins, en á sama tímabili í fyrra voru þeir 458.100 talsins. Þetta er 17,2% aukning á milli ára.

Greining Íslandsbanka segir um málið að áætlun um fjölda erlendra ferðamanna fáist einfaldlega með því að bæta við þeim 82.800 ferðamönnum sem fóru frá landinu um Leifsstöð á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Ef aukningin á síðasta fjórðungi í ár frá sama tíma í fyrra verður hins vegar í takti við það sem hún hefur að jafnaði verið á þessu ári þá fer fjöldinn upp í 634 þúsund.