Erlendir ferðamenn skildu eftir sig ógreiddar hraðasektir fyrir um 40 milljónir króna í fyrra á grundvelli mynda úr starfrænum hraðamyndavélum sem staðsettar eru á völdum stöðum á landsbyggðinni.

Upplýsingar úr myndavélunum berast lögreglunni á Snæfellsnesi. Ólafur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn þar, segir mikilvægt að leita leiða til að leysa úr þessu vandamáli.

Ólafur segir í samtali við Morgunblaðið í dag að í langflestum tilvikum séu ferðamennirnir sem skilja eftir sig hraðasktirnar, á bílaleigubílum eða á bílum annarra lögaðila. Hann tekur hins vegar fram að þessar 40 milljónir séu einungis sektir sem myndavélarnar hafa skráð. Þegar hraðinn er mældur með öðru móti sé sektin innheimt á staðnum.