*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 26. nóvember 2014 11:08

Erlendir ferðamenn strauja kortin

Erlend greiðslukortavelta var 7,1 milljarður króna í október og jókst um 28% milli ára.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Erlend greiðslukortavelta hér á landi var 7,1 milljarður króna í október sem er 1,5 milljörðum króna meira en á sama tíma á síðasta ári. Hefur veltan þannig aukist um 28% milli ára. Þetta kemur fram í niðurstöðum Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Hæstu upphæðum í október vörðu erlendir ferðamenn á hótelum og gistihúsum, eða 1,4 milljörðum króna sem er 35,5% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Ferðamenn vörðu álíka upphæð í „Ýmsa ferðaþjónustu“ en sá liður hefur aukist mest frá október í fyrra eða um 75%. Undir þann lið falla meðal annars skoðunarferðir, hvalaskoðun og aðrar skipulagðar ferðir.

Hver erlendur ferðamaður greiddi að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir um 107 þús. kr. í október sem er 2% hærri upphæð en í október í fyrra. Leiðrétt fyrir verðhækkunum síðustu 12 mánaða var var raunveltan álíka há og í fyrra. Ferðamenn frá Sviss keyptu að jafnaði fyrir hæstu upphæðir með greiðslukortum.