Erlendir fjárfestar eiga um fimmtung af heildarmarkaðsvirði fyrirtækja í íslensku Kauphöllinni, eða sem nemur 216 milljörðum króna. Hefur hlutfallið hækkað um 3 prósentustig í sumar, eða úr 18 í 21 prósent um síðustu mánaðamót að því er Fréttablaðið greinir frá, en hlutfallið fór hæst árið 2007, þegar það var tæplega 39%.

Hlutfallsleg hlutafjáreign verðbréfa- og fjárfestingarsjóða fór á sama tíma hlutfallslega lækkandi, en þeir áttu um 9,8% af markaðsvirði skráðra bréfa í maí, en áttu 7,8% í byrjun september. Hlutdeild sjóðanna dróst því saman um rúmlega fimmtung á þremur mánuðum og hefur það ekki verið lægra í fimm ár. Hlutdeildin fór hæst í 12% árið 2015.

Á sama tíma hefur bein hlutabréfaeign íslenskra heimila í skráðum félögum ekki verið minni í að minnsta kosti fimmtán ár, og hefur það haldist í um 4% af heildarmarkaðsvirði í sumar, eða sem nemur um 41 milljörðum króna. Á árunum fyrir fall fjármálakerfisins átti almenningur hins vegar að jafnaði á bilinu 12 til 17% af markaðsvirði skráðra félaga.

Í septemberbyrjun áttu íslenskir lífeyrissjóðir 39% allra skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni. Það er nokkurn veginn sama hlutfall og síðustu tvö ár en í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008 jókst hlutdeildin verulega eða úr 8,5% árið 2009.

Einkafjárfestar eiga svo í gegnum eignarhaldsfélög sín rúmlega 19% af markaðsvirði skráðra fyrirtækja sem er eilítil lækkun frá því í byrjun sumars.