Nokkrir erlendir fjárfestar eru við það að eignast 51% Framtakssjóðs Íslands í upplýsingatæknifyrirtækinu Advania. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að um sé að ræða 3-5 einstaklinga með mikla reynslu úr upplýsingatæknigeiranum á Norðurlöndunum. Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, segir þetta fyrst og fremst stjórnendur og stofnendur upplýsingafyrirtækja síðustu 20-30 ára.

Í blaðinu segir að viðskiptin séu með þeim hætti að sjóðurinn framselur forgangsrétt sinn til áætlaðrar hlutafjáraukningar upp á um tvo milljarða króna í fyrirtækinu.

Framtakssjóðurinn á 71% hlutafjár í Advania.

Fjárfestarnir koma að Advania í gegnum sænska félagið AdInvest.