Í þessari viku var gengið frá kaupum á Íslenskri erfðagreiningu af fyrrum móðurfélagi þess. Kaupandinn, Saga Investments LLC, er fjárfestahópur sem leiddur er af Polaris Ventures og ARCH Venture Partners, þekktum fjárfestum í Bandaríkjunum á sviði líftækni. Íslensk erfðagreining mun áfram starfa undir nafninu deCODE genetics og selja vörur sínar og þjónustu, m.a. deCODEme erfðagreiningarpróf fyrir einstaklinga, deCODE Diagnostics greiningarpróf og vísindaþjónustu deCODE segir í tilkynningu.

Fyrirtækinu verður framvegis stjórnað af tveggja manna framkvæmdastjórn sem mynduð er af Earl "Duke" Collier, fyrrum framkvæmdastjóra hjá líftæknifyrirtækinu Genzyme Corporation, sem hefur tekið við starfi forstjóra, og Kára Stefánssyni sem er starfandi stjórnarformaður og yfirmaður rannsóknasviðs.

Íslensk erfðagreining hefur algjöra sérstöðu í rannsóknum í mannerfðafræði í heiminum. Rannsóknir fyrirtækisins byggja á erfða- og læknisfræðilegum upplýsingum um 500.000 aðila frá öllum heimshornum sem tekið hafa þátt í rannsóknum á vegum fyrirtækisins. Þar af eru um 140.000 Íslendingar sem lagt hafa fyrirtækinu lið undanfarin ár.

Áfram í fararbroddi

„Íslensk erfðagreining er í fararbroddi í heiminum hvað varðar rannsóknir á breytileikum í erfðamengi mannsins sem hafa áhrif á algenga sjúkdóma. Rannsóknir okkar og sérþekking hafa gert okkur kleift að þróa greiningatæki sem eru einstök. Þessi tæki eru nýtt í þágu sjúklinga, lækna og vísindamanna. Við trúum að geta okkar til að vinna með æ meira magn upplýsinga muni tryggja áframhaldandi forystu okkar við rannsóknir í erfðafræði og að með traustri fjármögnun og aðkomu Duke Collier að fyrirtækinu verðum við í fararbroddi við að breyta vísindum í framúrskarandi vörur og þjónustu.", segir Kári Stefánsson í tilkynningu.

„Ég er afar ánægður með að hafa slegist í hóp með Kára og því framúrskarandi vísinditeymi sem starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu," segir Duke Collier í tilkynningu. „Íslensk erfðagreining sameinar vísindi á heimsmælikvarða, óviðjafnanlegan aðgang að erfðaupplýsingum og öflug tæki til að stýra og greina þessar upplýsingar. Með þessu er Íslensk erfðagreining ómetanlegur viðskiptaaðili rannsakenda, rannsóknastofa og fyrirtækja sem starfa í fremstu röð greinarinnar."