Erlendir aðilar eiga tæpa 184 milljarða króna bundna í íslenskum ríkisverðbréfum. Margt bendir til að tiltrú þeirra á bréfunum sé meiri en áður og liggi þeim ekki mikið á að selja krónueignir sínar í skiptum fyrir gjaldeyri við mögulegt afnám gjaldeyrishafta, að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Rifjað er upp að í sérriti Lánamála ríkisins sé m.a. talið að eigendahópurinn samanstandi nú orðið af „þolinmóðari“ fjárfestum. Sé það raunin ætti að hafa dregið úr þrýstingi á krónuna þar sem fleiri fjárfestar fá viðunandi ávöxtun á fé sitt í núverandi ástandi.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, tekur undir þetta í samtali við Morgunblaðið og bendir á að talsverður hluti óþolinmóðustu fjárfestanna hafi selt krónueign sína í ríkisverðbréfum í kjölfar fyrstu gjaldeyrisútboða Seðlabankans. Fjárfestar sem eigi ríkisverðbréfasafn nú séu mun þolinmóðari og ekki tilbúnir til að fara út á hvaða gengi sem er. Margir þeirra séu stórir fjárfestar sem þoli áhættu og teljir að þeir séu að fá ágætis ávöxtun á fjárfestingu sína í íslenskum ríkisverðbréfum miðað við þá ávöxtun sem sé í boði í ríkisskuldabréfum á erlendum mörkuðum um þessar mundir.