Einkahlutafélagið Scoresoft Holdings N.V. hefur keypt 18,6% hlut í Creditinfo Group Ltd., móðurfélagi Lánstrausts hf. Seljandi hlutarins er Reynir Grétarsson, framkvæmdastjóri Creditinfo. Scoresoft Holdings N.V. er í eigu nokkurra fyrrverandi stjórnenda Experian-Scorex, sem starfar á svipuðum markaði og Creditinfo með fjármálaupplýsingar. Kaupverðið er ekki gefið upp.

Að sögn Reynis Grétarssonar er það mikilvægur áfangi að fá þessa nýju hluthafa inn í félagið enda ekki algengt að erlendir fjárfestar fjárfesti í óskráðum íslenskum félögum. Graham Platts, fyrrum forstjóri Experian-Scorex, mun setjast í stjórn Creditinfo Group en hann mun einnig verða stjórnarformaður Creditinfo Solutions en það er sá hluti Creditinfo sem fæst við annað en upplýsingamiðlun, þ.e. hugbúnað, líkanagerð og ráðgjöf.

Experian-Scorex er hluti af stærsta fyrirtæki heims á því sviði sem Creditinfo starfar, Experian. Scorex er sá hluti Experian sem veitir aðra þjónustu en upplýsingar, þ.e. hugbúnað, ráðgjöf og líkanagerð (e. Scoring). Experian keypti Scorex fyrir nokkrum árum og nú er hluti af þeim sem stóðu að Scorex, m.a. forstjórinn og framkvæmdastjóri sölusviðs, að ganga til liðs við Creditinfo. Sagði Reynir það sérlega ánægjulegt enda eru þessir einstaklingar ekki bara að koma inn sem fjárfestar, heldur munu þeir vera í hlutastarfi hjá Creditinfo.

"Creditinfo er í þekkingariðnaði þar sem starfsmenn skipta meira máli en annars staðar. Því er mikill fengur að fá þessa menn til liðs við okkur, en mitt mat er að þetta séu færustu menn í heiminum á ákveðnum sviðum, einkum Graham. Svo geri ég ráð fyrir að fleiri starfsmenn Experian kunni að fylgja í kjölfarið," sagði Reynir.

Fyrr á árinu var sagt frá því að International Finance Corporation (IFC), sem er hluti af Alþjóðabankanum (World Bank Group), hefði óskað eftir því að kaupa hlut í Creditinfo Group Ltd. Að sögn Reynis eru þau áform óbreytt. Viðræður um það hafa hins vegar gengið afar hægt en hann sagðist vonast til þess að þeim viðræðum lyki fyrir áramót.

Creditinfo Group er nú með starfsemi í fjölda landa, einkum í Mið- og Austur-Evrópu. Starfsmenn félagsins eru 250, þar af um 60 á Íslandi. Ríflega 60% af tekjum félagsins koma erlendis frá.

Hluthafar Creditinfo Group:

Landsbanki Íslands 39%

Reynir Grétarsson 23%

Scoresoft Holdings N.V. 18,6%

Spron 9%

Aðrir 10,4%