Erlendir aðilar voru fyrirferðamiklir á skuldabréfamarkaði í síðasta mánuði. Fram kemur m.a. í Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins, að þeir hafi keypt allt sem í boði var í óverðtryggða ríkisbréfaflokknum RIKB14 en ekkert í þeim lengri, RIKB22. Í óverðtryggða flokknum hljóðaði tilboðið upp á fjóra milljarða króna að nafnvirði. Í lengri flokknum var tilboðum upp á 4,4 milljarða króna tekið. Með kaupunum bættu erlendir aðilar við sig sem nemur 4,8 milljörðum króna í styttri flokknum. Mismunurinn var keyptur á eftirmarkaði með skuldabréf.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu að erlendir aðilar hafi í lok ágúst átt 49% af útistandandi í ríkisbréfaflokknum RIKB14 og var hún í lok síðasta mánaðar komin í 60%.

Fram kemur í Morgunkorninu að skuldabréfaflokkurinn RIKB12 var á gjalddaga í ágúst og sé líklegt að erlendir aðilar hafi verið að ráðstafa þeirri útgreiðslu að hluta í RIKB14-flokkinn í september.

Greiningardeildin segir erlenda aðila í raun horfa fremur til óverðtryggðra flokka en hinna og til bréfa með gjalddaga innan fjögurra ára. Þó sé áhugi þeirra á lengri flokkum að glæðast, ekki síst á bréfum með gjalddaga árið 2019. Þeir áttu í lok september bréf í flokknum RIKB19 upp á 21,3 milljarða króna eða um fjórðung af útstandandi bréfum.

„Hvað RIKB19 varðar þá teljum við að háir nafnvextir (8,75%) á flokknum spili stórt hlutverk í þessum aukna áhuga, en nafnvaxtagreiðslur RIKB-bréfa eru ein drýgsta leiðin fyrir erlenda krónueigendur til að kaupa gjaldeyri fyrir hluta krónueigna sinna,“ segir í Morgunkorninu.