Á fyrstu þremur mánuðum árs 2017 var nýfjárfesting erlendra aðila meiri en allt árið í fyrra. Bindiskylda færði áherslu af skuldabréfamarkaði og inn á hlutabréfamarkað. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri samantekt Arion banka um hlutabréf, arðgreiðslur, ávöxtun og áhuga Íslendinga og útlendinga . Áhugi útlendra fjárfesta á innlendum hlutabréfamarkaði virðist stóraukast við skref til afnáms hafta að sögn greiningardeildarinnar.

Þar kemur einnig fram að útlit sé fyrir að félög sem eru skráð í Kauphöll Íslands (Nasdaq Iceland) greiði alls 16 milljarða króna í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2016, sem er 18% lækkun á arðgreiðslum frá árinu á undan.

Arðgreiðsluhlutfall markaðarins er um 1,8% að sögn greiningardeildarinnar. Einnig er tekið fram að vægi félaga sem byggja á íslenskri eftirspurn fer vaxandi og þau greiða hærra hlutfall hagnaðar í arð. Ef tekið er með í myndina kaup á eigin bréfum má áætla að greiðslur til hluthafa geti numið allt að 26 milljörðum króna.

Greiningardeild Arion banka bendir á að stóraukinn sparnaður virðist ekki skila sér í auknum fjárfestingum almennings á innlendum verðbréfamarkaði, en á sama tíma hafa peningamarkaðssjóðir vaxið í umfangi svo almenningur virðist leita í styttri tíma eignir.