Ekki hefur farið mikið fyrir beinni erlendri fjárfestingu á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að sé horft til næstu ára verður það einn af prófsteinum á íslenska markaðinn hvort erlendir fjárfestar muni fjárfesta hér. "Í því sambandi skiptir máli að útrásin hefur vakið mikla athygli erlendis. Kann það að skila sér í auknum fjárfestingum erlendra fjárfesta hérlendis. Hugsanlega yrði það framfaraskref fyrir íslenska markaðinn ef Kauphöll Íslands yrði sameinuð erlendri kauphöll," segir í Morgunkorninu.

Fram kom í máli Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar, á morgunverðarfundi Greiningar ÍSB að hann telur einungis tímaspursmál hvenær tekst að vekja áhuga erlendra fjárfesta á íslenska hlutabréfamarkaðinum líkt og tekist hefur á innlendum skuldabréfamarkaði en erlendir aðilar standa að um þriðjungi veltu hans.