Talsverður áhugi virðist vera meðal erlendra fjárfesta á því að kaupa fasteignir og jafnvel heilu fasteignafélögin hér á landi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa þessir fjárfestar áhuga á að eignast margar eignir og verðbilið mikil.

Þannig eru heimildir fyrir því að menn með mjög mikið svigrúm séu tilbúnir að kaupa fasteignir og hafa þannig heyrst upphæðir allt að 15 milljarðar króna. Einn heimildarmaður sagðist hafa verið í sambandi við nokkra erlenda aðila og sagði að sá stórtækast hefði haft svigrúm til að kaupa fyrir sex milljarða króna.

Að sögn Jónas Þórs Þorvaldssonar, framkvæmdastjóra fasteignafélagsins Landfesta, hafa þeir orðið varir við þennan áhuga og fengið margvíslegar fyrirspurnir án þess að nokkuð hafi verið ákveðið í þeim efnum. Hann sagði að vissulega væru eignir til sölu hjá þeim ef rétt verð fengist en hann sagði að engin tilboð hefðu borist. Hann sagði að þeir hefðu bent mönnum á að þeir væru ekki í stakk búnir til þess að taka á móti tilboðum eins og stendur vegna óvissu í bankakerfinu en Landfestar eru í eigu Nýja Kaupþings. ,,Ef menn hafa raunverulegan áhuga láta þeir ekki stoppa sig,” sagði Jónas.

Hann og fleiri bentu á að inn á milli væru fjárfestar sem hefðu komið hingað til að skoða ástandið og hefðu haft fráleitar hugmyndir um verð.