Fjárfestar erlendis eru farnir að slaka á kröfum sem þeir hafa hingað til gert til skuldabréfaútgefenda sem standa illa fjárhagslega, að því er segir í frétt Financial Times. Sókn fjárfesta í hærri ávöxtun en þeim býðst með hefðbundnari fjárfestingum hefur fært útgefendum skuldabréfa meira vald í samningaviðræðum við fjárfesta.

Mörg af skuldugustu fyrirtækjum veraldar hafa verið að gefa út skuldabréf án skilmála um skuldsetningu eða rekstrarafkomu, en slíkir skilmálar hafa verið nokkuð algengir þegar skuldug fyrirtæki sækja sér fé á markað.

Hlutfall þessara nýju lána, sem kölluð eru á ensku „cov-lite“, er nú um helmingur allra lána til mjög skuldugra fyrirtækja og er það hærra hlutfall en árið 2007. Skilmálarnir, sem hingað til hafa fylgt lánum sem þessum, geta t.d. falið í sér að hlutfall skulda og hagnaðar verði að vera innan ákveðinna marka eða að hafnaður verði að standa undir ákveðnum fjölda af afborgunum fram í tímann. Ef skilmálar eru brotnir er annað hvort hægt að gjaldfella lánin eða neyða viðkomandi fyrirtæki í fjárhagslega endurskipulagningu.

Matsfyrirtækið Moody's hefur varað við þessari þróun og sagt að merkja megi ákveðna skilmálabólu á skuldabréfamarkaði og að fjárfestar gætu lent í vandræðum þegar og ef bandaríski seðlabankinn hækkar vexti á ný.