Erlendir fjárfestar hafa áhuga á að kaupa 87% hlut erlendra kröfuhafa í Arion banka. Hluturinn er metinn á 116 milljarða króna. Jóhannes Rúnar Jóhannesson, formaður slitastjórnar Kaupþings, segir í samtali við Morgunblaðið í dag, að málið sé ekki komið í þann farveg að erlendir aðilar hafi skuldbundið sig til að hefja formlegar viðræður. Hann vill ekki gefa upp hverjir það eru sem hafi áhuga á bankanum að öðru leyti en því að þeir „standa nærri Íslandi á landakortinu og hafa verið að fjárfesta í rekstri fjármálafyrirtækja.“

Jóhannes segir of snemmt að tjá sig um verðhugmyndir og það hvort erlendir aðilar vilji koma að kaupum á Arion banka í samfloti með innlendum fjárfestum.

Bent er á í umfjöllun Morgunblaðsins að við sölu á Arion banka þyrfti slitastjórn Kaupþings að óska eftir undanþágu hjá Seðlabankanum svo kröfuhafar gætu fengið kaupverðið til sín í erlendum gjaldeyri. Jóhannes segir ljóst að það yrði mjög erfitt ef ekki útilokað að selja bankann fyrir erlenda gjaldeyri nema þá að stjórnvöld og Seðlabankinn komi að því með einhverjum hætti.