Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður hins tiltölulega nýstofnaða Miðflokks segir kosningabaráttuna hafa verið einstaklega skemmtilega og því hafi hann ekki fylgst mikið með neikvæðri umfjöllun erlendra fjölmiðla um íslensku kosningarnar.

Í frétt New York Times um kosningarnar er Sigmundi líkt við Donald Trump forseta Bandaríkjanna, en þar segir að Ísland gangi nú til kosninga í skugga hneykslismála, andstyggðar og vantrausts segir í frétt Vísis , sem einnig vísar í pistlahöfund sænska Aftonbladed sem líkir Íslandi við sósíaliska alræðisríkið Norður Kóreu.

Jafnframt má benda á frétt Al-Jazera fréttastofunnar í Qatar þar sem rætt var við fulltrúa Pírata sem og Þorvald Gylfason háskólaprófessor sem bæði fullyrtu að kosningarnar snerust um stjórnarskrártillögur 25 manna stjórnarskrárráðsins og meinta spillingu.

„[É]g held að í þessu tilviki þá komi þetta eins og svo oft áður að miklu leyti héðan frá Íslandi,“ segir Sigmundur Davíð spurður út í umfjöllunina.

„Mér finnst mjög dapurlegt þegar Íslendingar eru að nota erlenda fjölmiðla í innanlandsbaráttu. Það má vitna í Winston Churchill sem sagði: „Ég legg það ekki í vana minn að gagnrýna mín eigin stjórnvöld erlendis, en ég bæti upp fyrir það þegar ég kem heim.“ Það mættu sumir hafa það til hliðsjónar.“