*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 28. október 2017 18:45

Erlendir fjölmiðlar notaðir

Formaður Miðflokksins segir dapurlegt þegar Íslendingar séu að nota erlenda fjölmiðla í innanlandsbaráttu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður hins tiltölulega nýstofnaða Miðflokks segir kosningabaráttuna hafa verið einstaklega skemmtilega og því hafi hann ekki fylgst mikið með neikvæðri umfjöllun erlendra fjölmiðla um íslensku kosningarnar.

Í frétt New York Times um kosningarnar er Sigmundi líkt við Donald Trump forseta Bandaríkjanna, en þar segir að Ísland gangi nú til kosninga í skugga hneykslismála, andstyggðar og vantrausts segir í frétt Vísis, sem einnig vísar í pistlahöfund sænska Aftonbladed sem líkir Íslandi við sósíaliska alræðisríkið Norður Kóreu.

Jafnframt má benda á frétt Al-Jazera fréttastofunnar í Qatar þar sem rætt var við fulltrúa Pírata sem og Þorvald Gylfason háskólaprófessor sem bæði fullyrtu að kosningarnar snerust um stjórnarskrártillögur 25 manna stjórnarskrárráðsins og meinta spillingu.

„[É]g held að í þessu tilviki þá komi þetta eins og svo oft áður að miklu leyti héðan frá Íslandi,“ segir Sigmundur Davíð spurður út í umfjöllunina.

„Mér finnst mjög dapurlegt þegar Íslendingar eru að nota erlenda fjölmiðla í innanlandsbaráttu. Það má vitna í Winston Churchill sem sagði: „Ég legg það ekki í vana minn að gagnrýna mín eigin stjórnvöld erlendis, en ég bæti upp fyrir það þegar ég kem heim.“ Það mættu sumir hafa það til hliðsjónar.“