Samningur Seðlabanka Íslands við norrænu Seðlabankana hefur vakið nokkra athygli erlendra fjölmiðla, en bæði Financial Times og International Herald Tribune slógu frétt um efnið upp á forsíðu vefmiðla sinna í dag.

Financial Times

Í frétt Financial Times um aðgerðir Seðlabankans er efnahagsástandi á Íslandi lýst og yfirlýsing Seðlabankans rakin. Auk þess ræðir Financial Times við Lars Christensen, yfirmann í greiningardeild Danske Bank.

„Íslenska krónan hefur styrkst um meira en 5% vegna þessara frétta. Það virðast kannski sterk viðbrögð, en fréttirnar ættu að skoðast sem jákvæðar fyrir íslenskan markað. Við búumst ekki við neinum áhrifum á aðra norræna markaði“ hefur Financial Times eftir Lars.

„Aðgerðirnar breyta þrátt fyrir það litlu fyrir þjóðhagsstöðu Íslands og það er enn líklegt að við sjáum nokkuð snöggan samdrátt í íslensku efnahagslífi á komandi ársfjórðungum. Líklegast er að verg landsframleiðsla landsins dragist saman á þessu ári og því næsta, eins og Seðlabanki Íslands hefur spáð.“

Frétt Financial Times

International Herald Tribune

International Herald Tribune hefur það sama eftir greiningaraðilum og aðrir miðlar, að upphæðin sem samið var um í dag breyti í raun ekki miklu en í aðgerðunum felist yfirlýsing frá Seðlabankanum um að hann sé að vinna í málunum og geti gripið til þeirra aðgerða sem til þarf.

Blaðið vitnar í yfirlýsingu Stefan Ingves, bankastjóra sænska Seðlabankans. „Á tímum óvissu og ringulreiðar bera seðlabankarnir ábyrgð og eiga að vinna saman til að ná sínum markmiðum. Skiptasamningurinn miðar að því að styðja Seðlabanka Íslands til að ná því markmiði að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi“ er haft eftir Stefan.

Frétt International Herald Tribune

Bloomberg

Bloomberg kveður fastar að orði en aðrir miðlar og segir Íslandi hafa verið boðið neyðarlán til að rétta við krónuna og koma í veg fyrir efnahagshrun. Bloomberg ræðir við Lars Christensen, líkt og Financial Times, og hefur eftir honum að þessar aðgerðir muni hjálpa við að koma stöðugleika á markaðinn en muni ekki laga ójafnvægi íslenska efnahagskerfisins.

Í frétt Bloomberg er einnig rætt við Árna Mathiesen, fjármálaráðherra. „Menn hafa efast um að við hefðum burði til að gera eitthvað við óvæntum atburðum, en þetta mun vonandi slá á þær efasemdir“ er haft eftir Árna.

Frétt Bloomberg