Um 132 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í síðasta mánuði. Þetta er 16.500 fleiri ferðamenn en á sama tíma í fyrra og nemur fjölgunin 14,4%. Erlendir ferðamenn hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í ágúst frá Bandaríkjunum (14,7%), Þýskalandi (14,0%), Frakklandi (9,8%) og Bretlandi (7,7%). Þar á eftir komu Ítalir (4,8%), Norðmenn (4,6%), Spánverjar (4,6%), Danir (4,2%) og Svíar (3,8%). Samtals voru þessar níu þjóðir um tveir þriðju (68,2%) ferðamanna í ágúst.

Af einstaka þjóðum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Bretum og Þjóðverjum mest milli ára í ágúst. Þannig komu 3.584 fleiri Bandaríkjamenn í ágúst ár, 2.431 fleiri Bretar og 1.824 fleiri Þjóðverjar.