Í ár er Reykjavík Fashion haldið í Hörpu eins og síðastliðin tvö ár. Þórey Eva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri RFF, segir að stefnt sé að því að halda hátíðina tvisvar á ári þar sem vor og sumarlína er sýnd annars vegar og hins vegar haust og vetur. Einnig er stefnt að því að stækka erlenda hópinn sem sækir sýninguna. Þórey segir það vera draumastöðu ef hátíðin væri í líkingu við sölusýningar erlendis.

„Það væri auðvitað meiri háttar flott að sjá það gerast en markaðurinn þyrfti að stækka töluvert og margt þyrfti að koma saman. Það þarf að taka inn í jöfnuna sterka samkeppnisstöðu annarra borga. Það er hins vegar ekkert meitlað í stein eins og sjá má með velgegni Reykjavíkurborgar sem vinsæls áfangastaðar.“ Hún segir jafnframt að samhliða því að reynt verði að halda hátíðina tvisvar á ári þá verði dagskráin styrkt enn frekar með tónlistardagskrá. „Hvenær það gerist fer eftir því hvert umhverfið verður fyrir fataiðnaðinn til að vaxa næstu árin. Það þarf því nauðsynlega á stuðningi stjórnvalda að halda.“

Aukinn sýnileiki
Á meðan stuðningur frá borg og ríki er langt frá því að vera nægilegur að sögn Þóreyjar hefur áhugi fyrirtækja á hátíðinni aukist töluvert. „Það hefur orðið mikill vöxtur frá fyrstu hátíð og spennandi tækifæri hafa myndast út frá því. Án bakhjarla okkar eins og Icelandair, Icelandic Glacial, Centerhotels og margra annarra væri ekki hægt að halda hátíðina.“

En hvaða tækifæri skapast hjá hönnuðum með því að taka þátt?
„Fyrst og fremst myndi ég vilja nefna aukinn sýnileika þeirra á heimamarkaði, sterkara tengslanet og markaðsefni. Markaðssetning er dýr og því er þátttaka í RFF góð fjárfesting fyrir þá hönnuði sem eru tilbúnir. Þetta er langhlaup og það tekur tíma að byggja upp stöndugt vörumerki.“

Telurðu hátíðina hafa mikil áhrif á aðra þætti eins og ferðamennsku og landkynningu?
„Hiklaust. Tíska er spennandi og það er skapandi og skemmtileg orka í kringum þá sem koma að framsetningu á hátíðinni. Hérna er snertiflöturinn stór og í raun sitja allir við sama borð. Það finnst gestum óskaplega spennandi. Það er mikill meðbyr með Íslandi í dag og ég tel að tískuhátíð geti lagt sitt af mörkunum í að styrkja hann enn frekar. Það er oft erfitt að mæla svona en nærtækt dæmi er til dæmis hin gríðarlega og ómetanlega landkynning sem Ben Stiller tók upp á sitt einsdæmi að gera þegar hann var hérna á vegum TrueNorth síðastliðið sumar. „Word of Mouth“ er ómetanlegt. Við njótum góðs af því að geta boðið vel tengdum erlendum gestum, sem oft verða sjálfskipaðir sendiherrar okkar víðs vegar um heiminn. Í ár eru „Hollywood- stjörnur“ fataiðnaðarins að koma. Calvin Klein kemur á vegum HönnunarMars en á vegum RFF kemur fulltrúi kvenþjóðarinnar sem verður tilkynntur á næstunni.“

Þórey Eva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri RFF, var í viðtali við Tísku, fylgiblað Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .