Gistinætur á íslenskum hótelum námu um 3,9 milljónum í fyrra og þar af keyptu Íslendingar sjálfir um 400 þúsund nætur. Það má því segja að á síðasta ári hafi Íslendingur gist í tíunda hverju hótelherbergi hér á landi. Þetta er töluvert lægra hlutfall en í t.d. Danmörku og Svíþjóð þar sem heimamenn standa fyrir um 60 og 75% gistinátta.

Samkvæmt frétt Túrista er fámenni þjóðarinnar og miklill fjöldi ferðamanna líklega skýringin á þessum mismun milli landa. Nú telur Hagstofan hins vegar að fjöldi íslenskra hótelgesta, á íslenskum hótelum kunni að vera ofmetinn. Samkvæmt gistináttatölum Hagstofunnar fækkaði íslendingum 15% í júní miðað við sama mánuð í fyrra. Samkvæmt Hagstofunni er ástæðan fyrir þessum mikla samdrætti sú að tekið hafi verið upp nýtt verklag við mat á áreiðanleika flokkunar gistinátta eftir þjóðernum. Það hafi valdið breytingu á hlutfallinu milli erlendra og íslenskra gesta og því hafi hlutfall íslenskra gesta líklega verið ofmetið.

Í svari Hagstofunnar við fyrirspurn Túrista um ofmat á fjölda Íslendinga, segir að í innsendum gögnum frá stöku gististöðum hafi komið í ljós frávik í hlutfalli íslenskra og erlendra gesta miðað við aðra gististaði, sömu gerðar, á sama svæði. Frávikin hafi sérstaklega verið í þá áttina að skilað hafi verið inn hærra hlutfalli af íslenskum gistinóttum en telja megi eðlilegt í samanburðinum og að í sumum tilvikum hafi mátt greina tímapunkt þar sem skyndileg breyting varp í hlutfalli þjóðerna í gögnum.

Einnig kemur fram í svarinu að Hagstofan hafi haft samband við viðkomandi gististaði til að finna leiðir til að bæta skilin á tölunum. Í þeim samskiptum hafi komið í ljós að í sumum tilfellum er sjálfvalið í bókunarkerfi viðkomandi hótels að þjóðerni sé íslenskt ef ekkert annað er valið. Því séu erlendir ferðamenn taldir sem Íslendingar í einhverjum tilfellum.

Í frétt Túrista segir einnig að það þekkist að hópar af erlendum ferðamönnum séu færðir til bókar sem Íslendingar eingöngu vegna þess að pötnunin á gistingunni kemur frá íslenskri ferðaskrifstofu. Það þyki of tímafrekt að breyta þjóðerni hvers og eins gestar í bókunarkerfinu og því er villan látin standa.