Erlendar greiningardeildir segja að íslenska krónan sé enn viðkvæm fyrir frekari veikingu í ljósi þess að Seðlabanki Íslands hafi ekki, samhliða stýrivaxtahækkun sinni í gær, tilkynnt um neinar nýjar aðgerðir til að auka aðgengi íslensku bankanna að lausafé í erlendri mynt eða um aukningu á gjaldeyrisforðanum.

Miklar væntingar höfðu verið á meðal fjárfesta og markaðsaðila um að greint yrði frá slíkum aðgerðum samfara vaxtaákvörðun Seðlabankans.

Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers segir að stýrivaxtahækkun Seðlabankans – ein og sér – muni ekki duga til þess að taka á þeim vandamálum sem íslenskur fjármálamarkaður stendur frammi fyrir.

Lehman bætir því jafnframt við að forsvarsmenn Seðlabankans viðurkenni að 50 punkta vaxtahækkun „muni ekki taka á því ójafnvægi í framboði og eftirspurn sem sé til staðar með íslensku krónuna á gjaldeyrismarkaði”.

Undir þetta tekur Bjarke Roed-Frederiksen, hagfræðingur hjá Nordea, sem segir að Seðlabankinn hafi ekki komið með neinar nýjar lausnir til að leysa þann vanda sem upp hefur komið á gjaldeyrisskiptamarkaði.

Hann segir að það hafi valdið markaðsaðilum vonbrigðum að Seðlabankinn hafi ekki uppljóstrað um neinar nýjar aðgerðir til að létta undir með íslenska bankakerfinu. Roed-Frederiksen segir að markaðir hafi átt von á slíkum aðgerðum, en vegna skorts á aðgerðum Seðlabankans gerir hann ráð fyrir því að krónan verði áfram undir miklum þrýstingi.

Greiningardeild sænska bankans Skandinaviska Enskilda Banken (SEB) segir efnahagshorfur í íslenska hagkerfinu enn vera slæmar þrátt fyrir 50 punkta vaxtahækkun Seðlabankans til þess að stemma stigu við vaxandi verðbólgu.

SEB spáir niðursveiflu í hagkerfinu á næstu árum, auk þess sem bankinn segir að skortur á trúverðugum aðgerðum Seðlabankans til að auka aðgengi íslensku bankanna að lausafé í erlendum gjaldeyri, hafi orðið til þess að valda veikingu á gengi íslensku krónunnar.

SEB segir að til viðbótar við þau þjóðhagfræðilegu vandamál sem íslenska hagkerfið glímir við um þessar mundir, þá standi íslensku bankarnir einnig frammi fyrir „alvarlegum vandamálum”.

Að mati SEB munu uppgjör bankanna fyrir fyrsta ársfjórðung á þessu ári „hafa þýðingarmikil áhrif fyrir íslensku krónuna til skemmri tíma”. SEP segist „eiga von á frekari veikingu krónunnar á næstunni”.