Eðlilegt er að spyrja hvort réttlætanlegt sé að borga dýrt nám fyrir erlenda nemendur sem flytja í flestum tilfellum aftur til heimalandsins en njóta góðs af menntuninni, segir Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta við Háskólann. Í Fréttablaðinu í dag segir að í ár stundi 1.152 erlendir nemendur nám við Háskólann og eru þeir með um 8% af þreyttum einingum. Átta prósent af kennslufjárveitingu til HÍ árið 2013 er um 500 milljónir króna. Ríkinu er ekki heimilt að innheimta gjöld fyrir nám erlendra nemenda samkvæmt lögum um opinbera háskóla en þau heimila einungis, sem verða 75 þúsund krónur á næsta ári samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi.

Þá segir í umfjöllun Fréttablaðsins að erlendum nemendum við HÍ fjölgaði um rúm 17% á milli áranna 2008 og 2012. Á sama tíma lækkaði fjárveiting til skólans að raunvirði um rúm 16 prósent.

Guðmundur R. Jónasson, framkvæmdastjóri reksturs og fjármála Háskóla Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið íslenska ríkið einnig græða á háskólanámi Íslendinga erlendis. „Íslendingar stunda nám víðs vegar um heiminn og þrátt fyrir að skólagjöld séu víða, er ekki að efa að mörg önnur lönd bera kostnað vegna náms Íslendinga í viðkomandi landi.“