Ekki er mikið um erlenda fjárfesta meðal stærstu hluthafa skráðra íslenskra hlutafélaga, en í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er ítarlega farið yfir eignarhald félaganna sem skráð eru á markað.

Helst ber að nefna heilbrigðisrisann William Demant, sem er langstærsti hluti Össurar og þar af leiðandi næststærsti hluthafi íslenskra hlutafélaga. Að vísu er 42,1% eignarhlutur félagsins í Össuri skráður í Danmörku og því er William Demant strangt til tekið ekki aðili á íslenskum markaði frekar en danski lífeyrissjóðurinn ATP sem á 5,1% í Össuri. Hlutur William Demant er metinn á tæpa 84 milljarða króna miðað við íslenskt gengi Össurar og hlutur ATP er metinn á 10,2 milljarða.

Bandaríski framtakssjóðurinn Yucaipa Companies er annar áberandi erlendur hluthafi. Sjóðurinn er stærsti hluthafi Eimskips með 25,3% eignarhlut í gegnum tvö skúffufélög eftir að hafa komið að endurreisn fyrirtækisins í kjölfar hrunsins. Eignarhlutur Yucaipa er metinn á 12,7 milljarða króna og samsvarar 1,4% af heildarvirði markaðarins. Eignir annarra erlendra hluthafa eru í algerum minnihluta.

Aflandskrónueigandi á hálft prósent

Athygli vekur að meðal 20 stærstu hluthafa hjá Reitum, HB Granda, Eimskip og Högum eru sjóðir að nafni Global Macro Portfolio og Global Macro Portfolio Absolute Advantage, en báðir eru þeir í eigu risaverð­ bréfasjóðsins Eaton Vance. Eaton Vance er sem kunnugt er einn stærsti aflandskrónueigandi Íslands og neitaði að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans á dögunum. Telur hann ný lög um aflandskrónur brjóta gegn stjórnarskránni og gæti hann farið í mál við íslenska ríkið. Sjóðir Eaton Vance eiga hlutabréf fyrir rúma 4 milljarða króna, eða 0,44% af heildarvirði markaðarins. Hins vegar á sjóðurinn íslensk ríkisskuldabréf fyrir nærri 40 milljarða.