Málamyndasamkomulag náðist um framtíð Byrs Sparisjóðs aðfaranótt síðastliðins þriðjudags milli fjármálaráðuneytis, stjórnenda Byrs og erlendra kröfuhafa sjóðsins.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að samkvæmt því mun ríkið leggja sjóðnum til eigið fé, stofnfé núverandi eigenda hans verður að miklu leyti skrifað niður og að erlendir kröfuhafar sjóðsins afskrifi um 50 til 60 prósent krafna sinna á sjóðinn.

Breska ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint var íslenskum ráðamönnum til ráðleggingar á næturfundinum. Endanlegar útfærslur á samkomulaginu verða að öllum líkindum kynntar í upphafi árs 2010.

Fjárhagsleg endurskipulagning Byrs, og flestra annarra sparisjóða landsins, hefur staðið yfir mánuðum saman. Tilgangur hennar er að sjóðirnir uppfylli skilyrði um eiginfjár- og lausafjárstöðu sem þeir gera ekki um þessar mundir. Til þess að svo verði þarf ríkið að leggja þeim til eigið fé.