Yfir tvö hundruð erlendir kröfuhafar hafa komið hingað til lands í kjölfar bankahrunsins, segir Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings. Margir þessara kröfuhafa hafi komið oft og fulltrúar sumra hafi verið hér allan tímann til að fylgja málum eftir.

Steinar Þór segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að kröfuhafarir hafi orðið óöryggir þegar ný ríkisstjórn tók við. Gríðarlegur tími fari í að útskýra slíkar breytingar.

„Allur órói er óþægilegur. Til dæmis þegar stjórn og forstjóri FME fóru frá og ný ríkisstjórn tók við. Kröfuhafar verða óöruggir og spyrja til dæmis hvað gerist eftir áttatíu daga, hvort það verði sett ný lög og hvort þetta þurfi að fara í annað ferli. Gríðarlega mikill tími fer í að útskýra þetta og ýmsar lagahliðar málsins."

Steinar Þór segir enn fremur í viðtalinu að skilanefndin fái ekki nein fyrirmæli frá Fjármálaeftirlitinu eða stjórnvöldum um hvernig meðhöndla eigi mál.

„Okkar verkefni felst í því að gæta að peningum og hagsmunum kröfuhafa. Við förum oft fyrir þingnefndir, stundum mörgum sinnum í viku, til að upplýsa þingmenn og einnig ráðherra. Við fáum ekki nein fyrirmæli frá FME eða stjórnvöldum um hvernig við eigum að meðhöndla einstök mál. Samskiptin við þau ganga fyrst og fremst út á að upplýsa þau um stöðuna," segir hann.

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Steinar Þór í Viðskiptablaðinu í dag.