Erlendir lífeyrissjóðir eiga umtalsvert meira í Össuri en íslenskir. ATP, stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, á nú orðið 6% hlut. Þá hafa lífeyrissjóðir og fjárfestingarsjóðir í Þýskalandi verið að auka við eign sína í félaginu að undanförnu, en áhugi á því hefur verið umtalsverður í dönsku kauphöllinni undanfarin misseri. Gildi lífeyrissjóður er sá sjóður sem á mest í fyrirtækinu af íslenskum lífeyrissjóðum, eða rúmlega 3%, en aðrir sjóðir eru með minna. Hlutfallslega, miðað við stærð, á lífeyrissjóður Vestmannaeyja þó umtalsverðan hlut í Össuri en hann nemur 0,3 prósentum af heildarhlutafé. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa norræni bankinn SEB og Banque Havilland, sem reistur var á grunni gamla Kaupþings í Lúxemborg, sett sig í samband við hluthafa að undanförnu og spurst fyrir um áhuga á sölu bréfa.