Erlendir verðbréfamarkaðir hafa farið hækkandi. Í Evrópu hefur Euro Stoxx 50 vísitalan hækkað um 1,94%, og FTSE 100 vísitalan breska um 1,23%. Þá hefur DAX vísitalan í Þýskalandi farið hækkandi um rétt tæplega 2%.

Talsverðar hækkanir urðu á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær, en þá hækkaði Dow Jones um 1,29% og Standard & Poor’s um 1,13%. Eflaust eru þessar hækkanir tengdar hráolíuverði á einn eða annan hátt, en Brent-hráolía hefur hækkað um rúm 2,13%.

Við lokun Asíumarkaða í morgun hafði Nikkei-vísitala japanska verðbréfamarkaðarins hækkað um 0,3% og Hang Seng í Hong Kong um 2,52%.

Yfirmaður peningamálastefnu Kína, Zhou Xiaochuan, sagði á blaðamannafundi að Kína hefði mörg verkfæri og nægilegt ráðrúm til þess að breyta og lagfæra fjármálastefnu kínverska ríkisins.

Meðal annars minntist hann á að þau skref sem Seðlabankinn hefði tekið varðandi gengismat júansins, þar sem gengið er metið með marga gjaldmiðla til hliðsjónar en ekki aðeins Bandaríkjadal, hefði gefið betri sýn á samband framboðs og eftirspurnar á mörkuðum þarlendis og ýtti undir stöðugleika.