Erlendir seðlabankar á borð við Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna leggja nú drög að því að auka fjármagn í umferð en takmarkið er að hleypa lífi í fjármálamarkaði á ný og stemma stigu við frekari lausafjárþörf á millibankamarkaði.

Seðlabanki Bandaríkjanna mun að öllum líkindum taka af skarið en búist er við því að Seðlabanki Evrópu, Englandsbanki og seðlabankar Kanada og Sviss muni allir taka þátt.

Þá er talið að með þessu verði hægt að bjóða bönkum lán með ódýrari hætti en ella.

Seðlabanki Bandaríkjanna mun á næstu dögum setja um 200 milljarða bandaríkjadala í umferð og verður það í boði í 28 daga að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá.

Þá er búist við því að seðlabankar geri gjaldeyrisskiptasamninga (e. currency swap) upp á 36 milljarða dala sín á milli þannig að hægt verði að eiga við skort á bandaríkjadölum á öðrum mörkuðum.

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun.