Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir hlutafjáraukningu í sprotafyrirtækinu Hefring ehf., auk aðkomu tveggja erlendra fjárfestingasjóða. Erlendu sjóðirnir eru Innoport, sem er þýskur sjóður, og hins vegar TechNexus, sem er bandarískur sjóður. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins kom fyrst að fjármögnun Hefring árið 2019 og eignaðist þá fjórðungshlut í félaginu.

Innoport er í eigu þýska fyrirtækisins Schulte Group sem er eitt það stærsta í heiminum í útgerð og rekstri flutningaskipa sem og skipa og báta fyrir annarskonar atvinnustarfsemi. Hjá Schulte Group starfa um 20 þúsund starfsmenn um allan heim en fyrirtækið á eða gerir út tæplega sjö hundruð skip af ýmsum gerðum. Niklas Koerner fjárfestingarstjóri hjá Innoport mun taka sæti í stjórn Hefring ehf. fyrir hönd Schulte Group. TechNexus er sjóður sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum, einkum í Bandaríkjunum og Evrópu, og vinnur með sprotafyrirtækjum að því koma á samstarfi þeirra við leiðandi fyrirtæki víða um heim sem vilja tileinka sér nýsköpun og nýja tækni þeirra.

„Aðkoma erlendu fjárfestanna felur í sér mikla viðurkenningu fyrir félagið. Með henni opnist á tengingar í hafsækinni starfsemi um allan heim. Fjármagnið verður nýtt til að stórauka sölu- og markaðsstarf auk þess sem vöruþróun verður efld til muna meðal annars með þróun á siglingakerfinu fyrir fiskibáta og skip,“ segir Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri Hefring, í fréttatilkynningu.

Hann stofnaði Hefring í lok árs 2018 ásamt Birni Jónssyni og Magnúsi Þór Jónssyni. Fyrirtækið vinnur að þróun á Hefring Marine siglingakerfinu sem gengur í megin atriðum út á að verja báta, skip og áhafnir þeirra fyrir höggum og hættulegum hreyfingum sem verða til vegna samspils siglingar, sjólags, hraða, stefnu og veðurs. Það gerir siglingakerfið með því að leiðbeina skipstjóra á hvaða hraða skuli siglt miðað við sjólag framundan en líka í hvaða stefnu sé rétt að halda til að ná sama markmiði að teknu tilliti til veðurs og sjólags. Hjá Hefring starfa nú níu starfsmenn með aðsetur í Reykjavík og á Akureyri en með þessari fjármögnun sem nú er í höfn verður starfsmönnum fjölgað enn frekar.

„Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í Hefring árið 2019 af því að sjóðurinn hafði trú á vöruþróun og framtíð félagins. Síðan þá hefur starfsemi félagsins tekið miklum framförum og það er okkur sönn ánægja að leiða nú aðkomu erlendra fjárfesta að félaginu og taka þátt í frekari fjármögnun þess. Aðkoma Innoport og TechNexus mun færa félaginu aukna reynslu og þekkingu sem og aukinn aðgang að alþjóðlegum aðilum í hafsækinni starfsemi,“ er haft eftir Huld Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.