Lið skipað erlendum starfsmönnum Plain Vanilla bar sigur úr býtum í svokallaðri hakkviku fyrirtækisins sem lauk síðastliðinn föstudag.

Í hakkvikunni lögðu starfsmenn fyrirtækisins niður vinnu við QuizUp leikinn í tvo daga og einbeittu sér í staðinn að því að finna leiðir til að einfalda lífið á skrifstofunni.

Hugmynd sigurliðsins fólst m.a. í að útbúa gjafapoka fyrir nýja erlenda starfsmenn með handbók, gjafabréfi á vinsælan veitingastað, korti af Reykjavík og korti af skrifstofunni svo fátt eitt sé talið. Þá höfðu þeir hannað spilastokk með myndum af starfsfólki Plain Vanilla ásamt leiðbeiningum um hvernig nafn þeirra er borið fram.

Einnig voru veitt verðlaun í flokknum „afhverju ekki?“ og féllu þau í skaut hóps sem byggði gróðurhús á svölum höfuðstöðva Plain Vanilla á Laugavegi.  Þá var einnig ákveðið að veita verðlaun fyrir það verkefni sem dómurunum þótti skemmtilegast, svokölluð geðþóttastuðulsverðlaun. Þar bar sigur úr býtum lið sem bjó til tæki sem stýrir tónlistinni sem leikin er í lyftunni í starfsstöðvum fyrirtækisins.

Dómnefndina skipuðu þau Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Guðjón Már Guðjónsson, forstjóri OZ, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Sigurgeir Jónsson, fyrrverandi yfirmaður hjá Bank of America.

Í tilkynningu er haft eftir Þorsteini Baldri Friðrikssyni, forstjóra Plain Vanilla, að þrátt fyrir miklar annir í kringum áframhaldandi þróun QuizUp sé mikilvægt að gefa sér tíma til að hreinsa hugann og beisla sköpunargleðina á þennan skemmtilega hátt.