„Var það hérna sem þetta gerðist,“ spurði norskur blaðamaður þar sem hann stóð í anddyri 101 Hótels og horfði andaktugur í kringum sig. „Hvar sátu þeir nákvæmlega,“ spurði hann leiðsögumann sinn, fulltrúa fjárfestatengsla hjá stórum íslenskum banka.

Ljóshærðu stúlkurnar á barnum litu undrandi upp frá hvítvínsglasinu þegar ljósmyndarinn mundaði linsuna. Sagnfræðilegt mikilvægi staða í höfuðborg Íslands hefur riðlast. Nýjustu gestirnir vilja nýjar upplýsingar.

Í dag er áhugaverðasti staðurinn í Reykjavík þar sem orrustan um Ísland var háð. Á barnum á 101 Hótel og í Sjávarkjallaranum. Árásaraðilinn er í jakkafötum og sveiflar í kringum sig platínukortum fremur en sverði en fær eigi að síður einkunnina „ribbaldi“ hjá gestgjöfum sínum.

Vogunarsjóðirnir vondu eru komnir til Íslands. Óhætt er að segja að umræðan um efnahagsmál á Íslandi hafi fengið yfir sig nýjan og þjóðernislegri blæ undanfarið og mörgum finnst sem svo að hagkerfi okkar hafi orðið fórnarlamb árásar sem enginn átti von á. Ekki er laust við að sumum þyki að gestrisni okkar hafi verið misnotuð þó undir niðri kraumi sjálfsásökun vegna þess að þegar allt kom til alls, vorum við dálítið barnaleg. Eða eins og einn viðmælandi blaðsins orðaði það: Við opnuðum hús okkar fyrir gestum sem höfðu ekkert gott í huga.

_____________________________________

Undanfarnar vikur hefur athyglin beinst að framferði erlendra vogunarsjóða og því hve mikil áhrif þeir hafa haft á lækkun íslenska hlutabréfamarkaðarins, veikingu krónunnar og hátt skuldatryggingaálag bankanna.

Í úttekt Viðskiptablaðsins í dag er atburðarásin rakin og reynt að leggja mat á áhrif og starfsaðferðir sjóðanna um leið og varpað er ljósi á þátttakendur í þessari síðustu orrustu um Ísland.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .