Í annað sinn á skömmum tíma hefur sænska fjárfestingarfélagið Industrivärden bætt við eign sína í Össuri. Félagið keypti í gær um 1,6% hlut og á eftir viðskiptin 20,45% hlutafjár í Össuri. Í byrjun júní keypti félagið 2,5% hlut en upphaflega fjárfesti Industrivärden í Össuri í maí 2002 þegar félagið keypti 15% hlut. Industrivärden á fulltrúa í stjórn Össurar. Danska fyrirtækið William Demant Invest hefur í sumar keypt um 7,4% hlut í Össuri. Mallard Holding, félag í eigu Össurar Kristinssonar stofnanda Össurar, á 18,7% hlut.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að Össur er eitt fárra félaga í Kauphöllinni þar sem erlendir fjárfestar eru áberandi. "...en að okkar mati er fjárfesting erlendu aðilanna jákvæð fyrir Össur og hluthafa félagsins. Jafnframt eru allar forsendur fyrir því að þáttur erlendra fjárfesta verði enn meiri í hluthafahópi Össurar," segir í Morgunkorninu. Bréf félagsins hækkuðu um 2% í gær.