Erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru áætlaðar um 4.500 milljarðar króna, um 306,9 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF), í lok árs 2009. Í júlí áætlaði Seðlabankinn að þessar skuldir væru  um 3.000 milljarðar króna eða um 200 prósent af landsframleiðslu. Reiknað er með að hlutfallið lækki jafnt og þétt næstu fimm árin og verði 210,6 prósent af VLF í árslok 2014.

Þetta kemur fram í gögnum sem unnin eru upp úr tölum frá Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) studdist við þegar hann endurskoðaði efnahagsáætlun Íslands. Þeirri endurskoðun lauk í gær. Erlendar skuldir þjóðarbúsins voru 192,9 prósent af landsframleiðslu í lok árs 2008.

Eignir mun minni en skuldir

Samkvæmt gögnunum, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er reiknað með að erlendar eignir Íslands, ef frá eru taldar eignir skilanefnda gömlu bankanna þriggja, hafi verið um 181 prósent af landsframleiðslu í lok júní síðastliðins.

Þar er um að ræða erlendar eignir lífeyrissjóðanna, gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands og eignir einkageirans sem að mestu eru fjárfestingar í Bretlandi, Lúxemborg, Hollandi og á Norðurlöndunum.

Írar og Bretar með stærri skuldahala

Samkvæmt tölum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), Alþjóðabankanum (World Bank) og Greiðslumiðlunarbankanum (BIS) eru tvær vestrænar þjóðir með erlenda skuldir sem eru hærra hlutfall af VLF en hjá Íslendingum. Þær eru Írland (884 prósent af VLF) og Bretland (341 prósent).