Samtals fóru 163 þúsund erlendir farþegum um Keflavíkurflugvöll í nýliðnum októbermánuði, en það eru 36 þúsund færri farþegar en í sama mánuði 2018 sem jafngildir 18,4% fækkun milli ára. Þetta kemur fram í nýjum gögnum sem Ferðamálastofa hefur tekið saman.

Um 57 þúsund Íslendingar fóru utan í október í ár eða 11% færri en í október 2018. Frá áramótum hafa um 522.600 Íslendingar farið utan eða 7,8% færri en á sama tímabili í fyrra.

Samkvæmt niðurstöðum talninga Ferðamálastofu á skiptingu þjóðerna munar mest um fækkun Bandaríkjamanna, en brottförum þeirra fækkaði um 25 þúsund frá því í október 2018 eða um 42% milli ára. Bandaríkjamenn voru engu að síður fjölmennastir í október eða um fimmtungur brottfara. Bretar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru um 20.500 talsins eða 16,9% færri en í október árið áður. Í þriðja sæti voru brottfarir Kínverja, tæp 10.800 talsins og fjölgaði þeim um 24,3% milli ára.

Frá áramótum hafa um 1,7 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 14,7% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Fækkun hefur verið alla mánuði frá áramótum. Í janúar nam hún 5,8%, í febrúar 6,9%, í mars 1,7%, í apríl 18,5%, í maí 23,6%, í júní 16,7%, í júlí 17%, 13,5% í ágúst og 20,7% í september.