Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2.195.271 árið 2017 eða 427.545 fleiri en árið 2016 samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Aukning milli ára nemur 24,2%.

Nærri helming fjölgunar má rekja til Norður-Ameríkana

Af einstaka markaðssvæðum voru brottfarir Norður-Ameríkana flestar eða 680 þúsund talsins og fjölgaði þeim mest milli ára eða um 181 þúsund. Aukningin nemur 36,3%. Brottförum Mið- og Suður-Evrópubúa fjölgaði um 21,8%, fóru úr 356 þúsund í 434 þúsund. Brottfarir Breta voru um 322 þúsund og Norðurlandabúa um 181 þúsund árið 2017 og fjölgaði um sex þúsund milli ára hjá hvoru markaðssvæði fyrir sig. Af einstaka þjóðernum voru langflestar brottfarir tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta eða um 41% af heildarbrottförum. Þar á eftir fylgdu brottfarir Þjóðverja (7,1%), Kanadamanna (4,7%) og Frakka (4,6%).

Vetrarferðir aukast

Aukning var í brottförum erlendra farþega milli ára 2016 til 2017 á öllum árstíðum. Aukningin var hlutfallslega mest að vori eða 36,7% og yfir vetrarmánuðina eða 32,9% en að sumri til var aukningin 17,1% og að hausti 15,5%. Þegar horft var hins vegar til þess hver hlutdeild árstíða var í aukningu brottfara frá 2016 til 2017 (427 þús.) má sjá að 42,4% má rekja til aukningar að vetri, 26,2% að sumri, 18,8% að vori og 12,1% að hausti. Hlutdeild vetrarferða fór vaxandi hjá öllum markaðssvæðum árið 2017 nema Norðurlöndunum og fylgir þeirri þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum í átt að jöfnun árstíðasveiflu. .