Samkvæmt tölum sem birtust í gær á vef Ferðamálaráðs er 5.6% fækkun erlendra ferðamanna 5 fyrstu mánuði ársins, en engar upplýsingar höfðu verið birtar frá áramótum. Samdráttur er á flestum helstu svæðum en mest er fækkunin frá Svíþjóð og Noregi. Það er þó 1-3% aukning frá Bandaríkjunum, Danmörku og Þýskalandi. Þetta eru mikil umskipti eftir tvö ár með mikilli aukningu.

Það er ljóst að hátt gengi íslensku krónunnar er að leika ferðaþjónustuna grátt eins og aðrar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar og rýrir samkeppnishæfni hennar. Þar að auki var dregið mjög úr framlagi ríkisins til markaðssetningar á ár og vöruðu SAF við því og sögðu lífsnauðsynlegt að verja greinina á meðan gengi krónunnar væri svo hátt og hún yrði best varin með því að auka markaðssókn. Erfitt er að spá um sumarið þar sem bókanir eru að koma mjög seint inn, en þessar tölur auka mönnum ekki bjartsýni.