Fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og Seyðisfjörð voru tæplega 660 þúsund árið 2012 en um er að ræða 106 þúsund fleiri ferðamenn árið 2011. Aukningin milli ára er því 19,2%. Kemur þetta fram á vefsíðu Ferðamálastofu.

Niðurstöður liggja ekki fyrir frá öllum öðrum flugvöllum með millilandaflug, þ.e. fyrir Reykjavík, Egilsstaði og Akureyri. Miðað við að umferð um þá hafi verið svipuð og árið 2011 segir í fréttinni að ætla megi að þær tölur sem nú liggja fyrir, þ.e. ferðamenn um Keflavíkurflugvöll og skipafarþegar um Seyðisfjörð, taki til um 98% erlendra ferðamanna sem hingað komu í fyrra.

Þegar tölur eru skoðaðar eftir tímabilum sést að aukningin milli ára var mest á vetrarmánuðum, þ.e. janúar til mars og í nóvember og desember. Tæplega 153 þúsund erlendir ferðamenn komu að vetrarlagi árið 2012 sem er tæplega fjórðungur heildarfjölda ferðamanna. Um er að ræða 37 þúsund fleiri ferðamenn að vetri til en árið 2011 sem gerir um 32% aukningu milli ára. Af einstaka markaðssvæðum var aukningin mest frá Bretlandi eða um 61,3% og af einstaka þjóðum voru flestir gestir einmitt frá Bretlandi, eða um 28,7% allra vetrargesta.