Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið sem hafa leitað til Landspítalans frá í fyrra á fyrstu átta mánuðum ársins. Alls innrituðust 252 erlendir ferðamenn á legudeildir samanborið við 154 á sama tíma í fyrra. Í júlí og ágúst leggjast að jafnaði tveir erlendir inn á Landspítalann á degi hverjum. Að sama skapi hefur komum ferðamanna á dag-, göngu- og bráðadeild spítalans fjölgað úr 1.645 í 2.590 á milli ára. Þróunin er samhliða fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að þessir 2.590 erlendu ferðamenn hafa komið 4.853 sinnum á bráða-, dag- eða göngudeildir. Sumir þeirra koma oftar en einu sinni.

María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, segir í samtali við blaðið mikla vinnu á bak við hvern erlendan sjúkling og að umsýslan sé ívið meiri en við íslenska sjúklinga. Tryggja verði að fá allar upplýsingar til að hægt sé að fá greiðslur frá erlendum tryggingafélögum sjúklinga og þessi aukna umsýsla kostar Landspítalann mikla peninga. Starfsfólk láti þessa vinnu ekki hafa áhrif á þjónustu við sjúklinginn. Á endanum þurfi að taka þetta allt saman svo Landspítalanum berist greiðslur frá erlendum tryggingafélögum sjúklinga.