Desember- og janúarmánuðir voru þeir söluhæstu hjá WOW air frá upphafi en sala erlendis frá hefur tekið mikinn kipp undanfarið. Nú er svo komið að rúmlega helmingur af allri sölu félagsins hefur komið erlendis frá.

Fram kemur í tilkynningu frá Wow air að tvöfalt fleiri ferðamenn hafa bókað ferðir til Íslands en á sama tíma í fyrra. Ef bornir eru saman janúarmánuðir 2012 og 2013 hefur fjöldi bókana frá erlendum ferðamönnum tvöfaldast samkvæmt sölutölum Iceland Express og WOW air en félögin sameinuðust eins og kunnugt er í lok október síðastliðinn.

Ef eftirspurnin er greind sést að það eru Bretar, Þjóðverjar og Frakkar sem sýna landinu mestan áhuga. Frá því í nóvember hafa þrisvar sinnum fleiri útlendingar komið inn á erlenda vefi WOW air.

Samningar að skila sér

Fjölgunina má rekja til þess að WOW air hefur gert samninga við nokkrar af stærstu ferðaskrifstofum í Evrópu sem selja þúsundum erlendra ferðamanna ferðir til Íslands. WOW air hefur til að mynda gert samninga við Huwans og 66nord sem er hluti af einni stærstu ferðaskrifstofusamsteypu Frakklands, GEOPHYLE-IRWIGOO.

WOW air mun fljúga næsta sumar til 14 áfangastaða og verður sætaframboðið 550 þúsund flugsæti á árinu 2013.