Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp um algjört bann við áfengisauglýsingum. Gangi frumvarpið eftir geta einstaklingar, fyrirtæki og fjölmiðlar búist við allt að 10 milljóna króna sekt ef þeir gerast svo kræfir að auglýsa áfengi. Bannið á að taka gildi 1. júlí næstkomandi ef frumvarpið verður að lögum.

Markmið með banninu er að draga úr skaðlegum afleiðingum áfengisneyslu. Fyrirhugað bann á eingöngu við um Íslendinga, íslensk fyrirtæki og íslenska fjölmiðla. Undir forystu Félags atvinnurekenda, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra auglýsingastofa hefur frumvarpinu verið mótmælt.

Samkvæmt þeim er verið að hygla erlendum áfengisframleiðendum á kostnað innlendra framleiðenda. Ótakmörkuð markaðsyfirráð erlendra bjórframleiðenda verði rothögg fyrir íslensk iðnfyrirtæki. Atvinnumissir verði jafnt í greininni sem og ýmsum stoðgreinum.

Mat þeirra er að skynsamlegra sé að leyfa auglýsingar á bjór og léttvíni með afar ströngum takmörkunum að sænskri fyrirmynd. Hafi Svíar sérstakt embætti til að fylgja reglunum eftir um áfengisauglýsingar.

Átti sá embættismaður, Matthias Grundström, að mæta á blaðamannafund á Íslandi á mánudag í síðustu viku og halda fyrirlestur um efnið. Sökum eldgoss komst Matthias ekki til landsins og því var hætt við blaðamannafundinn.