Bandaríska verðbréfaeftirlitið (e. Securities and Exchange Commission) ákvað á miðvikudaginn að stefna að því að heimila erlendum fyrirtækjum að greina frá fjárhagsgögnum sínum með því að notast við alþjóðlegar reikningsskilaaðferðir. Samkvæmt tillögu verðbréfaeftirlitsins myndi breytingin hins vegar eingöngu ná til félaga sem notast við reglur sem eru samþykktar af Alþjóðlegu reikningsskilanefndinni (e. International Accounting Standards Board). Markmiðið með þessari fyrirhugaðri lagabreytingu er að auka fjárfestingu beggja vegna Atlantsála.

Verðbréfaeftirlitið hefur lagt það til að hætt verði að krefjast þess af erlendum félögum að þau aðlagi fjárhagsyfirlit sitt í samræmi við bandarískar reikningsskilaðferðir, en slíkt hefur hingað til verið nauðsynlegt til þess að geta skráð félög í kauphallir þar í landi. Í frétt International Herald Tribune segir að þessar breytingar gætu orðið að lögum í upphafi ársins 2009. Charlie McCeevy, yfirmaður framkvæmdanefndar Evrópusambandsins (ESB) um fjármálaþjónustu, hefur einnig heitið því að sambandið muni samþykkja notkun bandarískra reikningsskilaaðferða fyrir þann tíma.

Christopher Cox, framkvæmdastjóri bandaríska verðbréfaeftirlitsins, sagði á fundi nefndar sem hefur málið til umfjöllunar að fyrirhuguð lagabreyting myndi hafa verulega þýðingu í átt að því að koma á einni samræmdri alþjóðlegri reikningsskilaaðferð á heimsvísu. Slíkt fyrirkomulag myndi gera það að verkum að fjárfestar ættu mun auðveldara með að öðlast betri og nákvæmari samanburð á félögum um heim allan.

Ef erlendum félögum á bandarískum markaði verður gert heimilt að notast við alþjóðlega reikningsskilaaðferð myndi það hvetja þau til þess að selja hlutabréf í Bandaríkjunum að mati Cox, en núverandi reglur gera slíkt mjög kostnaðarsamt fyrir erlend fyrirtæki, að því er fram kemur í frétt á vefsíðu Bloomberg fréttaveitunnar.