Aldrei hafa fleiri erlendir ríkisborgarar talið fram á Íslandi eins og í fyrra en þá var einn af hverjum átta framteljendum á Íslandi erlendir ríkisborgarar. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun borga nú nálega þrír fjórðu allra sem voru með tekjur tekjuskatt, sem er hærra hlutfall en sést hefur í langan tíma.

Af erlendu ríkisborgurunum sem hér telja fram er stór hluti á aldursbilinu 21 til 30 ára, eða meira en fimmtungur allra framteljenda, eða 22,7% að því er Morgunblaðið greinir frá.

Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur hjá Ríkisskattstjóra telur fjölgunina líkast til tímabundna „en ef erlendum ríkisborgurum á skattgrunnskrá heldur áfram að fjölga um 27,3% á hverju ári eins og árið 2016 verða þeir orðnir fleiri en Íslendingar á grunnskrá eftir rúm átta ár.“