Erlendum ríkisborgurum hefur nú fjölgað milli ára á Íslandi í fyrsta sinn frá árinu 2008 og eru þeir um 6,7% mannfjöldans. Í tölfræðiskýrslu Fjölmenningaseturs koma margvíslegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi í fyrra.

Í skýrslunni kemur fram að í ársbyrjun voru 21.446 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi. Það gerir 6,7% mannfjöldans. Í byrjun árs voru allt að því jafnmargar konur og karlar með erlent ríkisfang búsett á landinu. Það er mikil breyting frá því í byrjun árs 2008 þegar yfir 5.000 fleiri erlendir karlar en konur voru búsettir hér.

Í byrjun árs voru innflytjendur 25.926 talsins og 29.130 ef börn þeirra sem fædd eru á Íslandi eru talin með. Það þýðir að 9,1% landsmanna er annaðhvort innflytjandi eða af annarri kynslóð innflytjenda.

Átta af hundraði allra barna á Íslandi, á aldursbilinu 0–4 ára, teljast til annarrar kynslóðar innflytjenda.

Af einstaka ríkjum koma flestir erlendu ríkisborgararnir frá Póllandi, 9.363 einstaklingar í byrjun árs 2013, sem gerir 44% allra erlendra ríkisborgara á Íslandi. Pólverjar eru 3% landsmanna.

Hér má lesa meira um skýrslu Fjölmenningaseturs.