Aðalfundir voru haldnir í þremur félögum á aðalmarkaði í gær, auk Kviku banka sem er á First North markaðnum. Sjálfkjörið var í stjórn tveggja félaganna, Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og Reginn hf., en 6 voru um 5 sæti í stjórn Heimavalla, sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær samþykkti afskráningu félagsins úr kauphöllinni.

Heimavellir tilkynntu um það í morgun að Erlendur Magnússon yrði áfram stjórnarformaður félagsins en Halldór Krisjánsson tæki að sér varastjórn. Jafnframt hafði komið fram að bæði þau Arthur Irving fyrrum forstjóri Irving Oil og Anna Þórðardóttir stjórnarmaður í Íslandsbanka myndu ekki gefa kost á sér áfram í stjórnina.

Þrír vildu þeirra sæti í stjórninni, en þar sem einungis einn þeirra var kona, Rannveig Eir Einarsdóttir og bara tvær konur í framboði, þá voru þær sjálfkjörnar til að uppfylla skilyrði um 40% af hvoru kyni í stjórn. Hlaut Árni Jón Pálsson því sætið sem eftir var, en Kristján Óli Níels Sigmundsson var ekki kjörinn í stjórnina.

Í Tryggingamiðstöðinni var eins og áður segir sjálfkjörið en þar verður Örvar Kærnested áfram stjórnarformaður, en hann tók við formennsku stjórnarinnar árið 2014. Kristín Friðgeirsdóttir verður varaformaður. Í Reginn verður Tómas Kristjánsson áfram stjórnarformaður og Albert Þór Jónsson varaformaður stjórnar.