*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 24. janúar 2017 13:38

Erlendur áhugi á Dýrafjarðargöngum

Þrír af sjö erlendum aðilum sem sýna gerð Dýrafjarðarganga áhuga hafa ekki komið að gangagerð hér á landi áður.

Ritstjórn
Hrafnseyrarheiði verður óþörf þegar göngin verða tilbúin

Af þeim sjö aðilum sem sendu inn gögn vegna forvals útboðs Vegagerðarinnar á gerð Dýrafjarðarganga eru þrír sem ekki hafa áður unnið við gangagerð hér á landi.

Þetta kemur fram í frétt Vegagerðarinnar en þeir aðilar sem sýnt hafa verkefninu áhuga eru frá Danmörku, Tékklandi, Sviss, Noregi, Portúgal, Spáni og Ítalíu. 

Kemur í stað snarbrattrar Hrafnseyrarheiðar

Verkefnið snýst um að gera göng í botni Dýrafjarðar, í firðinum þar sem bærinn Þingeyri stendur fyrir miðju, yfir í nyrsta innfjörð Arnarfjarðar sem heitir Borgarfjörður. 

Myndi vegurinn taka við af hinni bröttu Hrafnseyrarheiði sem ásamt Dynjandisheiði, sem tekur við frá Borgarfirði, hefur verið meiriháttar farartálmi á sunnanleiðinni milli þéttbýliskjarnanna við norðan og sunnanverða Vestfirði.

Vegurinn milli bæja lokaður stærstan hluta ársins

Hefur vegurinn milli Ísafjarðarbæjar, sem er stærsta byggðarlagið í landshlutanum og helsti þjónustukjarninn, verið lokaður stærstan hluta ársins hingað til frá byggðarlögunum í Vesturbyggð, sem innihalda Bíldudal, Tálknafjörð og Patreksfjörð.

„Forval var auglýst í byrjun maí og áttu þeir verktakar sem hefðu áhuga á að taka þátt í útboðinu að skila inn gögnum 28. júní,“ segir í fréttinni.

„Sjö aðilar sendu inn gögn, þar á meðal eru þeir fjórir aðilar sem hafa verið að grafa göng á Íslandi undanfarin ár.

  • ÍSTAK hf. og Aarsleff  frá Danmörku, Ístak gróf síðast göng á Íslandi  við Búðarhálsvirkjun.
  • Metrostav a.s. frá Tékklandi og Suðurverk hf. , en þeir eru  að vinna við Norðfjarðargöng.
  • ÍAV hf. og  Marti Contractors Ltd, frá Sviss, sem eru í Vaðlaheiðargöngum og að hefja vinnu við stækkun  Búrfellsvirkjunar.
  • LNS SAGA og Leonhard Nilsen og sönner frá Noregi, sem eru að grafa göng undir Húsavíkurhöfða.

Síðan eru þrír aðrir aðilar

  • Mt Höjgaard, danskt fyrirtæki sem nýlega hefur sett hefur sett upp útibú á Íslandi, ásamt EPOS S.A. frá Portúgal.
  • C.M.C di Ravenna, frá Ítalíu.
  • Aldesa Construcciones,  frá Spáni.

Vegagerðin mun nú fara yfir innsend gögn og athuga hvort umsækjendur uppfylli sett skilyrði. Eftir um þrjár vikur veður gefinn út listi yfir þá verktakahópa sem valdir verða til að taka þátt í væntanlegu útboði. Heimilt er að takmarka fjöldann við fimm, ef fleiri uppfylla öll skilyrði og teljast hæfir.“