Breski auðkýfingurinn sir Richard George lánar fjármagn til byggingar um 2.500 fermetra reiðhallar og hesthúss í landi Lækjamóts í Víðidal í Húnaþingi vestra. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kostnaður við framkvæmdina nemi í kringum hálfan milljarð króna og verði hesthúsið með þeim flottari á landinu með stíum fyrir 31 hest. Ísólfur Líndal, hestamaður og reiðkennari, og fjölskylda hans að Lækjamóti stendur að framkvæmdunum. Þar verður sinnt hrossarækt og tamningum auk annars. Stefnt er að því að erlendir ferðamenn komi á Lækjamót í reiðkennslu.

Áætlanir gera ráð fyrir því að húsið verði fokhelt í haust og verði hægt að hefja rekstur í því í janúar á næsta ári.

Gullið í morgunkorninu

Auður Sir Richard George byggist á framleiðslu Weetabix, einu mest selda morgunkorni Breta. Afi hans hóf framleiðslu á því í Bretlandi árið 1932 og var sir George forstjóri Weetabix Limited þar til árið 2003 þegar hann seldi reksturinn til bandaríska sjóðsins Hicks Muse fyrir 642 milljónir punda, jafnvirði í kringum 77 milljarða íslenskra króna á meðalgengi þess tíma. Fjölskylda sir George framleiddi sömuleiðis Alpen-múslíið sem margir þekkja. Fleiri þekkt vörumerki voru sömuleiðis í eigu fjölskyldu auðmannsins, s.s. Weetos.

Breska dagblaðið Guardian sagði á sínum tíma, þ.e. undir lok árs 2003, að sir Richard George og fjölskylda hans hafi fengið 45 milljónir punda í reiðufé við söluna og ættingjar hans í George-fjölskyldunni og starfsfólk Weetabix deildu með sér afganginum.