Sparifélagið er fullfjármagnað og hefur það safnað fjárfestingarloforðum upp á 7,4 milljónir evra, jafnvirði rúmra 1,2 milljarða króna. Sparifélagið hefur unnið að því að kaupa hlut í sparisjóðum eða fjármálafyrirtækjum og ætlar að keyra á nýju viðskiptamódeli um rekstur viðskiptabanka. Fjármálaráðgjafinn Ingólfur H. Ingólfsson, sem jafnframt er einn eigenda Sparifélagsins, segir í samtali við VB.is ekki hægt að gefa upp að sinni hver eða hvaðan erlendi fjárfestirinn er.

Ingólfur segir 7,4 milljónir evra duga til að gera nýjan banka að veruleika.

„Samkvæmt okkar áætlunum dugar það til þess að kaupa hlut í sparisjóði og fara af stað, t.d. opna útibú á höfuðborgarsvæðinu," segir hann.

Sparifélagið hefur m.a. falast eftir kaupum á 22,4% Fjarðarbyggðar í Sparisjóði Norðfjarðar. Málið liggur enn á borði sveitastjórnarinnar. Þá hefur félagið sömuleiðis leitað eftir því að kaupa hluti í sparisjóðum sem ríkissjóður eignaðist eftir hrun og Bankasýslan stýrir. Undirtektirnar þar hafa verið litlar, að sögn Ingólfs sem hefur fengið þau svör að þar sé unnið að sameiningu sparisjóðanna.