Sérfræðingar á markaði vænta þess að innan skamms komi í ljós hvort að fleyting krónunnar gengur eftir eins og að var stefnt, enda mikilvægt að efndir fylgi orðum eins fljótt og hægt er eftir reglusetningu Seðlabankans síðastliðin föstudag.

„Mér finnst líklegt að einhvers konar markaður með gjaldeyri, sem rúmast innan reglna Seðlabankans, líti dagsins ljós fyrir vikulok og leysi daglegu uppboðin af hólmi. Erlendur gjaldeyrismarkaður virðist hafa þornað upp í bili, ef marka má Reuters Dealing, svo vonandi skila gjaldeyristekjur sér meira og minna í heimahaga," sagði einn sérfræðingur.

Eftir því sem komist verður næst voru síðustu viðskipti í Reuters Dealing með EUR/ISK krossinn síðdegis á mánudag. Þó verður að hafa í huga að viðskiptin hafa oft verið ansi strjál á þessum markaði og stundum liðið dagar á milli.

Sérfræðingar telja að ef ekki verða veruleg undanbrögð frá reglum Seðlabanka um skilaskyldu verði þessi markaður tæpast mikilvirkur að nýju, því útlendingar vilja flestir selja krónur og kaupa gjaldeyri og þá vantar einhvern mótaðila.

Ef menn leyfa sér að ætla að reglur Seðlabankans haldi og menn finni ekki einverjar holur í þeim ætti hliðarmarkaðurinn (e. off-shore) að hverfa. Það verður því eins konar prófsteinn á hversu vel reglur og áætlun Seðlabanka virkar hvort þessi hliðarmarkaður er endanlega búinn að geispa golunni eða hvort hann rís upp að nýju.

„Mér finnst þó líklegast að viðskipti þar verði í besta falli í einhverri mýflugumynd, og kannski engin," sagði einn viðmælenda Viðskiptablaðsins.